Uncategorized

Illégal (2010)

Play Podcast
4 min. and 4 sec.
Play Podcast
4 min. and 4 sec.

Illégal (Ólögleg) er önnur mynd Olivier Masset-Depasse í fullri lengd, en hann er belgískur leikstjóri, fæddur í Charleroi árið 1971. Myndin var sameiginlegt framleiðsluverkefni Belgíu, Frakklands og Lúxemborgar og heildarframleiðslukostnaðurinn var 2.2 milljónir €. Við framleiðsluna var aðaláherslan lögð á að endurspegla líkamlega og andlega upplifun sögupersónanna af stöðum og samskiptum eins nákvæmlega og hægt væri. Og það, þrátt fyrir að hin tímabundna flóttamannamiðstöð þar sem meirihluti myndarinnar gerist, hafi verið endurbyggð í yfirgefnu iðnaðarhúsnæði.

Kvikmyndin var frumsýnd á Cannes Festival’s Quinzaine des Réalisateurs 2010 og Belgar völdu hana sem framlag sitt til Óskarsverðlaunanna í flokknum Besta erlenda kvikmyndin, þó að hún ætti ekki sæti meðal fimm efstu myndanna.

Áður en Masset-Depasse gerði Illégal leikstýrði hann tveimur stuttmyndum, Chambre Froide árið 2000 og Dans l’ombre árið 2004, en í þeim báðum eru aðalsöguhetjurnar einbeittar kvenpersónur sem eru ákveðnar í að ná markmiðum sínum, hvað sem það kostar. Báðum myndunum var vel tekið af gagnrýnendum og sópuðu til sín um það bil 60 verðlaunum og viðurkenningum á fjölmörgum evrópskum og alþjóðlegum hátíðum. Í kjölfarið gerði hinn belgíski leikstjóri sína fyrstu mynd í fullri lengd árið 2006, Cages, sem segir frá ástríðufullri en eyðandi ást, og með hana var honum boðið á margar alþjóðlegar hátíðir, meðal annars í Toronto og Róm. Myndin fékk góða dóma gagnrýnenda í Belgíu og almenningur sýndi henni mikinn áhuga.

Það er sterkur þráður á milli fyrri mynda Masset-Depasse og Illégal, því enn hverfist sagan um kvenpersónu, sem þarf að berjast til að verja tilveru sína og tilfinningar. Það sem vekur mesta athygli er þó að í öllum fjórum myndunum fer sama leikkona með aðalhlutverkið. Það er leikkonan Anne Coesens, en leikstjórinn belgíski lýsir henni með þessum orðum: ,,Hún er Stradivarius. Með slíkt hljóðfæri í höndunum breytir maður engu: Ef maður spilar á það verður maður aldrei þreyttur á því. Hún hefur leikið í öllum myndunum mínum. Ég held að ég skilji hvenær leikari er réttur í hlutverki sínu, en með Anne get ég gengið lengra.  Með henni er ég, frekar en með öðrum, höfundaleikstjóri. Samstarf okkar hefur mjög góð áhrif á myndirnar mínar, sérstaklega þó þessa.”

Við kynningu myndarinnar útskýrði Masset-Depasse hvernig hann hefði fengið þá hugmynd að láta aðalsöguhetjuna vera ólöglegan innflytjanda. ,,Í mörgum myndum hefur verið sýnt hversu langt fólk er tilbúið að ganga til að dvelja hérna, í landinu okkar. Dag einn áttaði ég mig á því að ég bjó í einungis 15 kílómetra fjarlægð frá ríkisrekinni, lokaðri, flóttamannamiðstöð, þar sem fólki, sem gat ekki sýnt skilríki sem heimiluðu því dvöl í landinu, var haldið. Mig langaði til að kynna mér málið. Ég fór oft þangað og hitti ólöglega innflytjendur, en líka hagsmunagæslumenn flóttamanna og lögregluna. Ég ákvað að gera skáldverk en ekki heimildamynd, vegna þess að þá gæti ég kafað dýpra ofan í sjónarhorn persónanna: Ég var að reyna að festa á mynd meiri sammannlega reynslu. Til viðbótar langaði mig til að meðhöndla viðfangsefnið eins og í sálfræðitrylli. Á meðan ég vann að handritinu varð mér oft hugsað til Midnight Express, eftir Alan Parker, þó að ég vildi að myndin yrði raunsæisleg og byggð á  vandaðri rannsóknavinnu. Allt sem sést í myndinni hefur gerst, að minnsta kosti einu sinni.”

Árið 2015, eftir að Masset-Depasse gerði Illégal, gerði hann sjónvarpsmyndina Le sanctuaire, en hún var frumsýnd í janúar á hátíðinni International Festival of Audio-visual Programming í Biarritz.

 

Michele Marangi

 

Now playing:
Featured Posts