Uncategorized

Akadimia Platonos (2009)

Play Podcast
3 min. and 31 sec.
Play Podcast
3 min. and 31 sec.

Akadimia Platonos er úthverfi í norðvestanverðri höfuðborg Grikklands, Aþenu. Svæðið dregur nafn sitt af Akademíu Platós. Þar er þéttbýlt og flestir búa þar í afar breiðum, lágreistum byggingum á tveimur hæðum.

Þetta er sögusvið kvikmyndarinnar Akadimia Platonos, sem er eftir Filippo Tsitos sem skrifaði handritið og leikstýrði myndinni. Kvikmyndin sem var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Locarno 2009, beinir athyglinni að togstreitu sem stafar af  menningarmismun  í fjölmenningarsamfélagi, sem einkenndi Grikkland samtímans, þegar almenningur um allan heim var að átta sig á að fjármálakreppa var yfirvofandi. Myndin er gamanmynd, hún fjallar um eigendur fjögurra lítilla verslana sem á degi hverjum opna rimlahlera búðanna sinna og sitja saman við kaffidrykkju og opinbera kynþáttafordóma sína með neikvæðum athugasemdum um kínversku og albönsku verkamennina sem vinna á byggingasvæðum í nágrenninu. Móðir eins þeirra þjáist af alvarlegum minnisglöpum og saga hennar bætir mikilvægum þræði við myndina, sem er minnið og hvernig hægt er að varpa fortíðinni inn í nútíðina og skoða hana í nýju ljósi.

Í Akademíu heimspekinnar, sem á sér rætur í hugsjónum Platós, er umfjöllunarefnið hugmyndafræði og vangaveltur um veröldina. Á torginu í úthverfi Akadimia Platonos, hanga drukknir afkomendur forngrískrar menningar, leika sér í fótbolta og móðga innflytjendur. Í myndinni er hæðst að ýktum andstæðum, annars vegar kynþáttafordómum sem birtast í fordómafullum athugasemdum í samtímanum og hins vegar í hinni fornu platónsku samræðulist sem byggði á samhyggð og því hvernig hægt væri að byggja fyrirmyndarborgir.

 

Filippos Tsitos er fæddur í Aþenu 1966. Hann lærði markaðsfræði við háskólann í Aþenu og hóf störf sem kvikmyndatökumaður og aðstoðarleikstjóri við gerð nokkurra heimildamynda og var dagskrárgerðarmaður tónlistarþátta fyrir  útvarp. Hann flutti síðan til Þýskalands (landsins sem í samvinnu við Grikkland framleiddi Akadimia Platonos). Hann sérhæfði sig í leikstjórn við þýsku kvikmynda- og sjónvarpsakademíuna í Berlín. Hæfileikar hans til að segja sögur birtust í stuttmyndum sem hann leikstýrði og má þar sérstaklega nefna myndina Parlez-moi d’amour, sem vann þýsku stuttmyndaverðlaunin 1994. Myndin segir sögu tveggja innflytjenda í Þýskalandi, Grikkja og Rússa sem hittast á bar og reyna að halda uppi samræðum án þess að tala sama tungumálið. Fyrsta kvikmynd Filippos Tsitos í fullri lengd, My Sweet Home, var valin til sýningar á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2001. Hún segir skemmtilega sögu af veislu sem haldin er fyrir brúðkaup þýskrar konu og Ameríkana í útlegð.

Tsitos segir að eftir að hann hafi farið frá Grikklandi og verið í burtu frá heimalandi sínu, hafi hann fengið áhuga á að kynna sér land sitt og læra um það. Hann bætir við: ,,Áhugi minn á eigin uppruna kviknaði eftir að ég kom til Berlínar. Ég fór að skrifa sögur og skapa mína eigin sýn af Grikklandi. Til þess að þróa með mér skarpt og frumlegt sjónarhorn varð ég að vera í fjarlægð frá umfjöllunarefninu, landfræðilega.”

Now playing:
Featured Posts