Uncategorized

Eat Sleep Die (2012)

Play Podcast
3 min. and 8 sec.
Play Podcast
3 min. and 8 sec.

Borða, sofa, deyja (á frummálinu Äta, sova, dö) er fyrsta kvikmynd Gabrielu Pichler í fullri lengd. Leikstjóri myndarinnar er af austurrískum og bosnískum uppruna, fædd í Svíþjóð 1980.

Kvikmyndin var gerð fyrir lítið fé, leikararnir í myndinni eru ekki atvinnumenn og myndin var tekin upp á stöðum sem leikstjórinn lifir og hrærist á, þar á meðal á heimili hennar.

Kvikmyndin hlaut frábærar viðtökur gagnrýnenda og sænskra áhorfenda. Þegar sænsku kvikmyndaverðlaunin Guldbaggen 2012 voru veitt, vann kvikmyndin til fernra verðlauna í eftirsóttustu flokkunum: besta kvikmyndin, besta leikstjórnin, besta leikkona í aðalhlutverki og besta kvikmyndahandritið. Viðfangsefni myndarinnar, gæði hennar og efnistök leikstjórans urðu til þess að haldin var sérstök sýning á myndinni á sænska þinginu. Myndin fékk áhorfendaverðlaun á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum 2012. Svíþjóð tilnefndi myndina til Óskarsverðlauna í flokknum besta erlenda kvikmyndin, hún komst þó ekki í lokaúrtak fimm eftstu myndanna. Söguefni og umhverfi myndarinnar er Gabrielu Pichler mjög vel kunnugt, en hún ólst upp í úthverfi í Stokkhólmi. Árið 2003 ákvað hún að segja upp starfi sínu í kexverksmiðju og hóf nám við kvikmyndaskólann í Gautaborg. Þar gerði hún nokkrar stuttmyndir: Sú þekktasta er lokaverkefni hennar frá 2008 Skrapsär (Scratches). Myndin er um unglinga sem fara inn á niðurnítt iðnaðarsvæði, e.t.v. með því hugarfari að setjast þar að, eða til að drepa tímann. Unglingarnir eru í leit að ást, en samtímis forðast þeir að tjá tilfinningar, af ótta við að sýna á sér veikan blett. Árið 2009 vann myndin Guldbaggen í flokki stuttmynda, árið 2010 áhorfendaverðlaunin á Alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni í Uppsölum og var sýnd á ýmsum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.

Við kynningu Borða, sofa, deyja, lýsti Pichler listrænum tilgangi myndarinnar: ,,Að gera kvikmynd um samfélagshóp sem mér þykir vænt um, en skammast mín þó stundum fyrir að tilheyra. Svíþjóð á í erfiðu sambandi við sjálfsmynd sína þegar kemur að málefnum innflytjenda og pólitískra hælisleitenda. Ég vil taka þátt í að endurskapa sjálfsmynd Svíþjóðar. Saga aðalpersónunnar snýst að miklu leyti um sjálfsmynd hennar og hvernig aðrir sjá hana. Myndin lýsir veruleika margs ungs fólks á tímum efnahagskreppu í Evrópu, þar sem atvinnuleysi ríkir og innbyrðis átök í samfélaginu fara vaxandi. Mig langaði líka til að fjalla um persónuleg málefni og sýna samband feðgina, sem er ólíkt því sem sýnt var á hvíta tjaldinu þegar ég var stelpa.”

Vegna stílbragða Pichler hafa margir gagnrýnendur borið hana saman við Dardenne bræðurna, hún er stolt af því, þar sem þeir hafa verið henni fyrirmynd. Aðrir leikstjórar sem haft hafa hvað mest áhrif á hana eru Claire Denis, Wong Kar-Wai og Milos Forman.

 

Michele Marangi

Now playing:
Featured Posts