Uncategorized

Io Sono Li (2011)

Play Podcast
4 min. and 10 sec.
Play Podcast
4 min. and 10 sec.

Andrea Segre skrifaði handritið og leikstýrði myndinni Io Sono Li, sem var frumsýnd á Fenyjadögum (Venice Days) á 68. Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum árið 2011. Myndin var tekin til sýninga í ítlöskum kvikmyndahúsum í september það ár og í kjölfarið dreift til ýmissa Evrópulanda, til dæmis Frakklands og Spánar.

Myndin segir sögu kínversks innflytjanda til Ítalíu, konunnar Shun Li, sem þarf að vinna myrkranna á milli á saumastofu til að verða sér úti um nauðsynleg gögn til að fá son sinn til sín.

Myndin fékk þrenn verðlaun á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, þar á meðal Fedic verðlaunin (veitt af samtókum ítalskra kvikmyndaklúbba) ,,fyrir frumlega frásögn þar sem aðferðum skáldskapar og heimildamyndar er blandað saman af mikilli kunnáttusemi, þannig að myndin varpar áhrifaríku og sannfærandi ljósi á aðstæður samtímans.”

Verk Andrea Segre hafa oft verið í sviðsljósinu í Feneyjum og allt frá því að hann sýndi þar mynd sína Dio era un musicista (Guð var tónlistarmaður, 2005) sem var tileinkuð afrískri menningu, hefur hann fjallað um jaðarsetningu vissra þjóðarbrota og leit þeirra að ákveðnum þjóðareinkennum til að samsama sig með. Þannig hefur hann reynt að vekja athygli á upplifun þeirra af mismunandi félagslegum módelum.

Þetta á við um fyrstu heimildamynd hans, Lo sterminio dei popoli zingari (Útrýming Sígaunanna, 1998) og síðar Come un uomo sulla terra (Eins og maður á jörðu, 2008), sem segja frá reynslu og þjáningum innflytjenda á leið til Evrópu. Ekki má gleyma Il sangue verde (Grænt blóð), en í þeirri mynd var sett á svið atburðarás sem átti sér stað í Rosarno, í Reggio Calabria héraði í janúar 2010, þegar nokkur hundruð innflytjendur mótmæltu illri meðferð og hörmulegum aðstæðum sínum, kveiktu í bílum og slógust við lögreglu.

Io sono Li er fyrsta skáldaða mynd Segres í fullri lengd. Þar nýtir hann sér innsæið, sem kemur svo skýrt fram í heimildamyndum hans, en þetta er sérstaklega áberandi í kvikmyndatökunni, þar sem raunsæisstíll ræður ríkjum. Þessi áhersla hans á að nýta sér raunverulegar aðstæður sést til dæmis í því að kráin þar sem aðalpersóna myndarinnar, Shun Li, vinnur í myndinni, er til í alvörunni: Þetta er Osteria Paradiso í Chioggia í  Feneyjum, aðsetur fiskveiðimanna, sem veitti Andrea mikinn innblástur við gerð myndarinnar. Eigendur þessarar krár eru í raun og veru kínverskir innflytjendur. Gefum Andrea Segre orðið: ,,Þessi mynd er byggð á sönnum atburðum, sögu kínverskrar stúlku sem vann á barnum á krá, sem er mikið sótt af veiðimönnum Chioggia. Ég fékk hugmyndir fyrir söguna af því að fylgjast með stúlkunni. Hvers kyns tengsl gæti hún náð að mynda á svona stað, þar sem eiginlega aldrei neitt breytist? Eftir þessi raunverulegu kynni mín af henni ákvað ég að gera myndina. ”

Meðal nýjustu verka leikstjórans, sem fylgja hans fyrri hugðarefnum og skáldskap, er heimildamyndin Indebito (Ótímabær skuld, 2013) áhugaverð, en þar er listrænu ferðalagi ítalska tónskáldsins Vinicio Capossela fylgt eftir, sem verður svo vettvangur ástríðufullrar krufningar á grískri menningu og samfélagi á árunum í kringum fjármálakreppuna miklu. La prima neve (Fyrsti snjórinn), líka frá 2013, fjallar um innflytjanda til Ítalíu frá Togo, sem sest að í fjallaþorpi og binst heimamönnum sterkum böndum. Come il peso dell’acqua (Eins og þyngd vatns) var gerð til minningar um harmleikinn á Lampedúsa 2013 þar sem 366 flóttamenn drukknuðu.

Now playing:
Featured Posts